Opið alla daga 8-20

Saga Nóatúns


Nóatún Austurveri er að Háaleitisbraut 68

Saga Nóatúns

Nóatún á sér langa sögu sem nær allt aftur til 31. október 1960, þegar Jón Júlíusson, stofnandi Nóatúns, keypti verslunina Þrótt í Samtúni. Fyrstu Nóatúnsverslunina opnaði Jón fimm árum síðar, eða 1965, að Nóatúni 17. Nafn Nóatúns sótti Jón í íslenska goðafræði, þar sem sjávarguðinn Njörður bjó í Nóatúnum. Á næstu árum var vöxtur fyrirtækisins ör og búðunum fjölgaði ört. Óhætt að segja að Nóatún sé eitt þekktasta vörumerki landsins.

Allt frá upphafi hefur Nóatún lagt megináherslu á sérhæfingu og góða þjónustu með mat og kjötvörur. Í dag eru fisk- og kjötborð Nóatúns framúrskarandi og gefur Nóatún sig út fyrir að vera sú matvöruverslun sem er best í kjöti og ferskust í fiski.
Árið 1996 hófst samstarf Nóatúns og Kaupfélags Árnesinga. Í sameiningu stofnuðu þessi fyrirtæki innkaupa- og dreifingarmiðstöðina Búr. Þremur árum síðar eignaðist Nóatún helmingshlut á móti KÁ í 11-11 verslunarkeðjunni. Þann 1. maí 1999 var rekstur þessarra þriggja verslanakeðja sameinaður undir nafni Kaupáss hf. Ári síðar keypti Eignarhaldsfélag Alþýðubankans (EFA) Kaupás hf. Í október 2003 keypti Jón Helgi Guðmundsson Kaupás hf. og þar með talið allar verslanir Nóatúns.
Í dag er ein verslun sem ber nafn Nóatúns, en það er Nóatún Austurveri. Við hlökkum til að halda upp á 50 ára afmæli okkar í ár og höfum ákveðið að blása til sóknar.
Nóatún hefur í gegnum árin verið leiðandi í sölu á kjötvörum, ferskvöru og ávallt veitt framúrskarandi þjónustu. Nú þegar flestar verslanir leggja áherslu á minnkandi þjónustu munum við synda á móti straumnum og aðstoða okkar góðu viðskiptavini enn betur en áður. Það munu því nýjir straumar leika um Nóatún á afmælisárinu og um ókomna tíð.

Nóatún er hluti af Festi.
Festi hf. er eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja. Festi hf. er í eigu SF V slhf. og eru hluthafar um 30 talsins. SÍA II er stærsti einstaki hluthafi félagsins með um 27% hlut. Einkafjárfestar eru með um 26% eignarhlut, lífeyrissjóðir eru með um 31% hlut, tryggingafélög og sjóðir 15% eign í félaginu.
Sjá nánar á http://www.festi.is/eigendur

Sátt við Samkeppniseftirlitið vegna nýrra eigenda FESTI hf.

Þann 16. janúar 2014 gerðu Samkeppniseftirlitið, SF V slhf., Festi hf. (áður Bekei ehf.), Stefnir hf., sem rekstraraðili SF V, og Arion banki, sem eigandi Stefnis, sátt vegna breyttra yfirráða yfir dótturfélögum Festi hf., þ.e. Bakkanum vöruhóteli ehf., ELKO ehf., EXPO Kópavogur ehf., ISP á Íslandi ehf., Kaupási ehf., ásamt framsali tiltekinna fasteigna til SMG1 ehf. og SMG2 ehf.

Markmið sáttarinnar er að sporna gegn skaðlegum hagsmunatengslum eða öðrum samkeppnishindrunum sem stafað geta af eignarhaldi SF V á Festi og beinu og óbeinu eignarhaldi eigenda SF V á yfirteknum félögum. Með sáttinni eru ýmsar skyldur og kvaðir lagðar á ofangreinda aðila. Hvað varðar Festi hf. og dótturfélög þá eru í sáttinni skilyrði um sjálfstæði stjórnar og stjórnenda gagnvart keppinautum; að viðskipti við tengda aðila séu á viðskiptalegum forsendum; að boðin verði út þjónusta og ráðgjöf komi til skráningar félagsins á verðbréfamarkað; og að tiltekin upplýsingagjöf um starfsemi Festi hf. verði opinber.

SF V og Festi hafa falið innri endurskoðun Arion banka að hafa eftirlit með og tryggja að skilyrðum sáttarinnar verði fylgt. Allir aðilar, þ.m.t. Samkeppniseftirlitið, eru sammála um að innri endurskoðun Arion banka hf. sé óháður aðili í skilningi sáttarinnar og að starfsmenn einingarinnar búi yfir þeirri faglegu þekkingu og kerfum sem til þarf til þess að hafa eftirlit með sáttinni. Sérstakur verksamningur hefur verið gerður á milli aðilanna þar sem fjallað er um þær heimildir og kröfur til sjálfstæðis sem sáttin gerir ráð fyrir.

Hér má finna sáttina og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild sinni.

Sátt við samkeppniseftirlitið

Ákvörðun samkeppniseftirlitsins í heild sinni

Í stjórn Nóatúns ehf. eru:

Jón Björnsson

Gréta María Grétarsdóttir

Guðríður Hjördís Baldursdóttir